Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Andskotans fikt alltaf...

Til hvers í fjandanum er fólk að fikta þetta alltaf hreint?
Og hvað ætla þeir svo að gera við þennan hraðal?
Ég geri mér fulla grein fyrir að ég er kona með takmarkað vit á hröðlum (ef það er þá beygt þannig) en ég get með engu móti skilið til hvers í fjandanum þeir eru að eiga við eitthvað svona.

Er ég yfir höfuð eitthvað að fara að borga reikninga á morgunn?
Er ég ekki bara að fara að sækja um visa og skutlast niður eftir til Spánar eða eitthvert?

Ég verð frekar fúl þegar ég les svona og uppgötva að það eru einhverjir menn út í heimi sem eru hreinlega með líf mitt/okkar í lúkunum!!
Ég á fullt af börnum og er bara ekki til í að taka þátt í einhverju svona rugli, enda er kannski ekkert í boði að ég sé eitthvað spurð um álit.

Já ég er fýlupúki.

Eigið góðan júlí mánuð Crying


mbl.is Ekki hætta á ragnarökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fann´ann

Eftir töluverða 7 tíma leit á netinu fann ég loksins þann sem ég var að leita að.
Þvílíkur léttir. Gat varla sofið í nótt eða neitt.

Allavega kom þetta til vegna þess að ég og Ragna vorum eitthvað að ræða bíómyndir og ég var að segja henni að þótt að leikarar væru svaka góðir væri samt stundum sem þeir pössuðu ekki í hlutverkin sín. Eins og til dæmis Tom Hanks í Da Vinci lyklinum. Mér finnst hann svooo góður leikari, en bara alls ekki passa við hlutverkið í Da Vinci lyklinum.
Svo sagði ég henni að ég hefði alltaf séð fyrir mér ..... Og mundi ekki hvað hann hét.
Mundi bara ekkert, nema það sem ég skrifaði á bloggið í gærkvöldi.

Svo er ég búin að sitja við og fann hann loksins áðan.
James Woods.
Hann passar í Da Vinci hlutverkið. Nú get ég loksins slappað af.

james woods

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ætla til læknis á mánudaginn aftur þar sem ég er lítið að skána, þrátt fyrir át mitt á bólgueyðandi lyfjum.
Ragna sagði mér ýmislegt í gær sem getur útskýrt helling af mínum verkjum.
Nenni ekki að útskýra það fyrr en ég veit eitthvað meira.
Góða rest helgi til ykkar allra...


Leikari

Mig vantar nafn á leikara.
Hann er ekki jafn frægur og Tom Hanks og allir þeir.
En samt smá frægur.

Hann er about 55-60
Langleitur með niðurdregnar varir.
Skolhærður með slétt hár.
Hann hefur leikið rannsóknar löggu, oft.
Og stríðsmann.
Grannur... Ca 178 cm
Brosir pínu skakkt, meira út í annað.
Hvítur.
Amerískur... eða breskur.
Klæðir sig í blazer jakka með olnbogabótum.
Kominn með smá fellingar í kinnarnar, eins og þær hangi smá.
Ekki ljótur.

Hjálp.


Frú geðprúð.

Er ekki alltaf yndislegt að finna verki út um allt?
Finna að hausinn er sennilega 4 númerum of stór á hálsinn á þér, sem er by the way alltof langur og mjór.
Finna seyðing læðast út í hægri hendi og niður í hægri rasskinn og þaðan niður í löpp (hægri að sjálfsögðu)
Bara dásamleg tilfinning... Þá finnur maður svo vel að maður sé á lífi!
Þegar allar taugar frá haus og niður í alla útlimi (hægramegin ofkors) garga úr sársauka við hverja einustu litlu hreyfingu og/eða andardrátt, þá fer nú ekkert á milli mála að maður sé lifandi, annars mundi maður sennilega ekki finna neitt til.
Annars er ég sérlega geðprúð yfir þessu öllu saman.
Kveina og kvarta ekki mikið, en æpa þess í stað hérna inni, það bitnar þá hvorki á manni né börnum.
Búin að hakka í mig töflur og er ekki nærri því eins slæm og á mánudaginn og sunnudaginn, en stend bara í stað og er meiri að segja farin pínu til baka.
Og ef ég á að vera 100% hreinskilin þá er ég langt því frá að vera glöð.

Dásamlegt að koma þessu frá sér.

Knús á ykkur frá Hullu fýlupúka / geðprúðu.


Blóm :)

Þegar ég var ung, og Eiki minn var 7 árum yngri... s.s 18 ára þá kynntumst við.
Ekki með vilja, hittumst bara í vinnunni og urðum ástfangin og gátum bara ekkert gert að því.
Eða reyndum ekki.
Einhver tíma þegar við lágum og vorum að kúra bað ég Eika um að segja eitthvað fallegt við mig... Þið vitið eins og ástfangnar konur gera stundum...

Ég: Eiki... segðu eitthvað fallegt við mig InLove
Eiki: Ha??? uhhh, hummm. Sko... Ja,,, Blóm.

Ekki nákvæmlega það sem mig langaði að heyra þá stundina, en ef hann hafði sagt eitthvað annað mundi ég sennilega ekki muna eftir því og vera að blogga um það núna.

Ég er skárri í öxl, baki og hendi.  Ekki góð en betri.
Ég get t.d alveg snúið höfðinu ca 3 cm í hvora átt án þess að skæla.
Þannig að þetta er allt í rétta átt.

Kossar og dobbía af knúsi á ykkur.

p.s Fyrir Guðrúnu bloggvinkonu minnar á flatlendinu...: Íslenska konan er komin á tónlistaspilarann hérna til vinstri ef þig langar að hlusta. Whistling
Þið hin megið líka hlusta


Eymingja Hulla litla.

Í dag er ég búin að eiga mikið bágt.Crying
Þetta byrjaði reyndar allt 2 júní þegar ég hnerraði af svo miklu afli að ég fór næstum úr axlarlið, eða fékk einhvern verk í öxl og bak. Síðan þá er ég búin að fara skánandi, þar til í gær.

Við fórum í smá bíltúr með tengdamömmu sem er búin að vera hjá okkur frá síðasta fimmtudegi.
Pínu að reyna að heilla kjellu með fallegu umhverfi og miklum hita.
Þegar heim kom gerðist eitthvað og ég fann ógeðslegan seyðing leiða niður í hægri löpp.
Áður var ég búin að finna smá til í hægri handleggnum, en taldi það nú mest bara hreyfingarleysi.
En þetta varð bara verra og verra í gærkvöldi þar til þessi verkur hvarf! Bara sí sona.
Í morgunn komst ég svo varla fram úr rúmi.
Átti að mæta í vinnu kl 7:15 en hringdi mig inn veika.
Sat svo hérna heima og langaði að grenja, ég var svo pirruð.
Það hefur án efa verið ansi skemmtilegt fyrir tengdamóður mína að koma niður þegar hún vaknaði.
Held að hún sé nú ekkert vön að sjá mig geðfúla, en ég bara gat ekki haldið aftur af mér.
Fékk tíma hjá lækni rétt um 14 og ætlaði þvílíkt að hella úr mér yfir hann.
Þetta er sko ekkert í fyrsta sinn sem ég á bágt og aldrei neitt gert. Veit samt ekki nákvæmlega hvað ég vil láta gera... Bara lækna mig.

Þegar ég svo var kölluð inn tók á móti mér einhver nýr læknir. Sem var útaf fyrir sig gott því hann er ungur og virtist alveg til í að hjálpa mér.
Ég á minni dásamlega fullkomnu dönsku reyndi að útskýra fyrir honum að hægri höndin á mér væri rosalega máttlaus. mig minnir að ég hafi sagt honum að ég væri lömuð í hendinni, sem ég er alls ekki og skil ekki hvernig mér datt í hug að segja það. Kom bara engu öður fyrir mig á dönsku.
Svo þegar hann var búin að ganga úr skugga um að ég væri ekki að lamast, reyndi ég að segja honum að mér liði eins og ég væri búin að bera ógeðslega þungan innkaupa poka marga kílómetra.
Hann spurði hvort ég þyrfti að fara langt til að versla!!!
Loksins tókst mér að gera mig skiljanlega. Hann skoðaði mig fram og til baka. En fann auðvitað ekkert. Gæti verið klemmd taug, vöðvabólga eða eitthvað annað.
Fékk töflur og hann vonaði að þetta væri búið að lagast eftir 14 daga. Ég vonast hinsvegar til að verða góð á morgunn.
Ég sagði honum líka frá verkjunum sem ég er búin að hafa núna í ca 5 ár. Sem lýsa sér eins og að annað lungað í mér sé að falla saman. Verkur upp í öxl og út í kjálka og eyra.
Þá varð hann yfir sig hamingjusamur og vildi fá að hlusta mig aftur.
Ætli hann hafi ekki bara verið hrifinn af nýja spenastatífinu mínu...
Enýhá kom hann með snilldar spurningu.
Hann spurði hvort ég fengi nóga sól!!!
Uhhh hvað helduru? spurði ég. Neeiii. Það skín ekki sól í þessu rok rassgati.
Hann spurði hvaðan ég kæmi og þegar ég nefndi Ísland þá fannst honum ekki spurning að ég liði af D vítamínskorti. Sem er reyndar nokkuð skondið, því það er ekki langt síðan ég bloggaði um þá möguleika sjálf (í djóki að sjálfsögðu)
Ég sveiflaði upp erminni og leyfði honum að sjúga 3 hylki af blóði úr handleggnum á mér.
Fæ svör á mánudag. Er sennilega með helling af D vítamíni. En það er þá bara á hreinu.
Nú er ég búin að taka eina sterka bólgueyðandi töflu og á að taka aðra í kvöld.
Hlakka til að sjá hvort ég verði betri á morgunn.
Er nefnilega óþolandi þegar ég er í sjálfsvorkunn.

Knús á ykkur öll og takk fyrir fallegar kveðjur við færsluna um tengda-ömmu


Tengdaamma mín.

Ég á bestu tengdaömmu í heimi. InLove
Hún varð 80 ára 1.júní og við höfðum ekki tök á að fara heim og vera hjá henni á þessum degi. Því miður.  

Ég hef kynnst rosalega mikið af góðu fólki í genum tíðina, en ég hef aldrei kynnst manneskju sem er svona óeigingjörn og þakklát fyrir allt í lífinu.
Aldrei kynnst manneskju sem þakkar fyrir á hverjum degi að eiga falleg börn, barnabörn og langömmubörn og tárast í hvert skipti.

Þessi kona kom til okkar og var með okkur þann 21. júlí í fyrra þegar við Eiki giftum okkur og hélt fallegustu ræðu sem ég hef heyrt. (Ræðurnar voru samt allar hver annarri fallegri)
Hún dansaði eins og óð og reyndi að kenna honum litla bróður mínum einhvern vangadans. Hann talar en um það.
Hún sat þegar veislan fór að líða undir lok, með tárin í augunum, og þakkaði fyrir fallega afkomendur og gott líf.

Þessi kona er einstök og mér þykir svo brjálæðislega vænt um hana.

Ég held að þessi texti hafi verið samin með hana í huga.

 

Íslenska konan

Hún bar þig heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
Hún ávallt er vörn þín, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan sem ól þig og helgar sitt líf.

Með landnemum sigld hún um svarfandi haf.
Hún sefaði harma, hún vakti er hún svaf.
Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð.
Hún var íslenska konan sem allt á að þakka vor þjóð.

Ó, hún var ambáttin rjóð
hún var ástkonan hljóð
hún var amma svo fróð.
Ó, athvarf umrenningsins
inntak hjálpræðisins
líkn frá kyni til kyns.

Hún þraukaði hallæri, hungur og fár.
Hún hjúkraði  og stritaði gleðisnauð ár
Hún enn í dag fórna sér endalaust má.
Hún er íslenska konan sem gefur þér allt sem hún á.

Ó, hún er brúður sem skín
Hún er barnsmóðir þín.
Hún er björt sólarsýn.
Ó, hún er ást, hrein og tær
Hún er alföður kær.
Hún er Guðsmóðir skær.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
Þú veist hver var skjól þitt þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

En sólin hún hnígur og sólin hún rís.
Og sjá þér við hlið er þín hamingjudís,
sem alltaf er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar,
sem ann þér og helgar sitt líf.

Texti. Ómar Ragnarsson
Lag. Billy Joel.


LÖT!!! OG FÍLA´ÐA!

Nú er ég sko löt. Og nú líður mér vel.
Var búin að vera með einhvern óróa í kroppnum síðustu 2 vikur, og var alltaf að standa mig að því að vera að taka til. Án þess að hafa útbúið þar til gerðan miða.
Hef sjaldan á ævinni getað þrifið án þess að skrifa niður allt sem ég ætla að gera og strika svo út jafn óðum.
Stundum læt ég mér nægja að skrifa bara miða. (Eiki hatar þá, sérstaklega þegar ég gleð hann um helgar með því að skipta heimilinu á milli okkar, á miða,,, hann æpir alveg!)
Það getur líka tekið hellings tíma og maður er stundum gjörsamlega uppgefin eftir að hafa lagt hausinn í bleyti og hugsað út í allt sem á eftir að gera, og skrifa það svo allt niður á miða.
Ég elska nefnilega hreint heimili. Bara ekki nógu mikið til að standa í öllum leiðindunum, til að fá eitt þannig.
Elska líka peninga. Bara ekki nógu mikið til að neita mér um allt, til að geta safnað kjánalegum peningum.
Stundum hata ég reyndar peninga. Svona ástar- hatur samband milli mín og peninga.
Elska líka falleg blómabeð og fallega hirta garða. Get samt með engu móti hugsað mér að missa þessa fáu sólbaðsdaga í garðyrkju, auk þess er ég ekki lærður garðyrkjumaður.
Elska líka gamalt fólk, bara ekki nóg til að ættleiða eitt stykki þannig.

Ég ætlaði reyndar að skrifa um hvað ég er búin að vera í miklu niðurrifsástandi í nokkra daga, en er greinilega ekki búin að rífa mig það mikið niður að ég geti einbeitt mér að því hér á blogginu. (Eða að ég taki mig ekki nógu alvarlega 
Blogga þess í stað um eitthvað rugl.

Hulla þú ert asni... (bara að vera samkvæm sjálfri mér)

Ætla að fara að sofa, var á næturvakt, og er að hugsa um að vakna endurnærð og einbeita mér að því að tæta mig niður í frumeindir... seinna í dag, ef ég nenni.

Annars kom mín allra besta tengdamamma í gær og mamma og Lalli koma í mat í kvöld, því þau fara svo til køben á morgunn, þannig að kannski geymi ég alla niðurrifsstarfsemi þar til á laugardaginn. Nei annars, þá koma pabbi minn og Ragna... Æ sé bara til. Kannski næ ég að skipta deginum eitthvað upp.

Vona að þið hafið góðan dag og séuð skipulagðari en ég...


:o(

Og þannig fór það.

Sorglegt, en frábært að það hafi verið reynt.


mbl.is Ísbjörninn að Hrauni dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottastir :)

Þá eru strumparnir mínir allir komnir með gula beltið í Budo-karate...

strumpar

Langaði bara smá að monta mig InLove


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband