Hjalteyrin

Mig dreymdi Hjalteyrina í nótt.
Elska þegar mig dreymir staði sem mér hefur liðið vel á.
Það er einhvernvegin allt öðruvísi en að hugsa um þá.
Í draumum fer maður á staði sem maður var kannski búin að gleyma og ýmislegt rifjast upp sem maður annars hefði ekki verið að hugsa neitt um.
Ég man nú drauminn ekki greinilega og eins og er oft um drauma þá dofnar þeir þegar líður á daginn.
En ég er búin að hugsa um Hjalteyrina síðan ég setti strákana mína úr við skólann sinn og um leið og ég kom heim fann ég myndirnar sem ég er búin að vera að stela af netinu í gegnum tíðina og ljúfsárar minningar eru búnar að streyma fram.
Ég hugsa að ég sé frekar dramatísk hvað þetta varðar, læt kannski eins og níræð, en ég finn hjá mér ofboðslega löngun til að fara þangað aftur og eyða þar degi eða fjórum.
Fór þangað síðast fyrir 12 árum með Júlíus nýfæddan og þá var Eiki og Bogga systir með.
Eyddum ca klukkutíma þar.

Þegar ég var 7 skildu mamma og pabbi og mamma flutti með okkur stelpurnar norður á Akureyri. Þar kynntist ég honum Gunna stjúpa mínum og Stebba og Tryggva, strákunum hans tveimur.
Það er mömmu og Gunna að þakka að í dag á ég Begga bróðir og allar minningarnar tengdar Hjalteyrinni.

Eftir mínum minningum að dæma fluttum við einhvertíma mjög seint árs ( sennilega nóvember eða desember) til Hjalteyrar.
Mig grunar að þau hafi valið þennan stað til að hafa ráð á að kaupa stórt hús undir allan barnaflokkinn. Stebbi og Tryggvi  komu til okkar ca aðra hverja helgi, þannig að við vorum 6 krakkarnir þegar við vorum öll heima.
Og trúið mér það gat verið ótrúlega gaman hjá okkur.
Hjalteyrin saman stendur af tveimur götum. Efri götunni og neðri götunni.
Í efri götunni sem við bjuggum í voru 6 hús, þar af tvö tvíbýli.
Í neðri götunni eru svo 4 hús, öll tvíbýli nema eitt.
Svo eru eitthvað af húsum niður á eyrinni, en mest sumarhús held ég.

Við bjuggum í svakalega stóru húsi sem heitir Mikligarður. Mikligarður var í rauninni 4 býli þegar við fluttum þangað. Mamma og Gunni byrjuðu á að kaupa efri hæð og keyptu ekki löngu seinna neðri hæðin líka. Í hinum endanum var svo íbúð uppi og seinna fengu Hjalteyringar KEA a neðri hæðina.
Þarna var svo barnaskóli og þó að væri ekki mikið af börnum á Hjalteyrinni, þá keyrði rúta og sótti krakkana úr sveitinni.
Skólinn var bara upp í 6. bekk og stofurnar bara 3 svo að tveir bekkir deildu stofu. Enda bara um 4-6 krakkar í hverjum bekk.
Þegar var svo komið upp í 7. bekk fórum við í heimavist á Þelamörk, og vorum þar í 7. 8. Og 9.
Á Hjalteyrinni var nóg af móum til að leika sér í, tjörn, fjara sem nær inn að Akureyri (ekki vinsælt samt að reyna að labba þá leið án þess að láta vita af sér) og það sem mér þótti mest heillandi var gamla gamla síldarverksmiðjan sem lá yst á eyrinni, alveg í fjöruborðinu. Ekki sú barnvænsta en við gáfum skít í allt þannig, enda „pössuðum“ við okkur.
Veit að mæður okkar hefðu fengið hland fyrir hjartað ef þær hefðu vitað af okkur þarna en ekki að leika okkur upp í móa í búinu okkar.

Mamma hataði alla tíð þennan draumastað minn. Held að hún geri það ennþá.
Þarna átti hún sín verstu ár.
Gunni átti bílasölu á Akureyri þar sem hann vann myrkrana á milli á meðan hún sat föst í þessu volæðis rassgati, í allt of stóru húsi með olíukyndingu.
Ég er ofboðslega fegin hvað ég varð lítið vör við óbeit móður minnar á þessu himnaríki. Hugsa að það hefði dregið úr endalausi hamingju minni.

Ég sem barn upplifði mömmu og Gunna bara hamingjusamt fólk sem hafði lítið milli handana. Þau sönkuðu að sér gömlum húsgögnum og gerðu upp, Gunni skreytti veggi með þvílíkum listaverkum sem hann gerði sjálfur.
Mamma bjó til risastórt steinabeð í garðinum og ég man að það voru ófáar ferðirnar hjá þeim berandi stórar hellur og steina í þetta beð hjá henni.
Hún skreytti líka vegg á herberginu hans Begga með sól og skýjum og málaði svo mynd af uppáhalds sögu persónunni hans, Jason.

Meðan við krakkarnir fögnuðum stórhríð á veturna og rúlluðumst upp í endalausri hamingju þegar himinháir skaflarnir héldu áfram að stækka og urðu á hæð við húsið okkar, sat mamma greyið inni og bölvaðist út í veðurguðina og hataði að vera innilokuð á þessu krummaskuði sem henni fannst vera á hjar veraldar.

Við krakkarnir höfðum feikna nóg að gera við að leika okkur á sumrin og vorin, skoða hreiður með eggjum og seinna ungum í. Týna krækiber í tonna tali. Leika okkur í fjörunni, vaða í tjörninni, veiða hornsíli og að sjálfsögðu eyddum við mestum tímanum í ævinýra veröldinni sem verksmiðjan var.
Á veturna gátum við skautað á tjörninni, rennt okkur á þotum, hoppað á milli ísjaka (sem var ekki eins vinsælt hjá mæðrum okkar) og við grófum göng í skaflana sem hlóðust upp (meðan mamma var að missa sig inni). Göng sem voru svo löng að inn á milli gerðum við stór rými sem við gátum setið inn í með kerti sem við stálum oftast frá mömmu. Þessi göng var samt best að grafa þegar Stebbi og Tryggvi  voru í heimsókn því að þeir voru sterkari en við og þar af leiðandi duglegri grafarar.

Svo var það sem heillaði mig mest við veturna. Það var þegar rafmagnið fór af. Það þótti mér hrikalega spennandi.
Þá óð mamma geðill um allt húsið og kveikti á kertum fyrir okkur. Það þótti mér gaman. En ekki mömmu.
Ég man að ég gat ekki með neinu móti skilið mömmu að taka ekki þátt í gleði minni í rafmagnsleysinu. Hún bölvaði ísskápnum og eldavélinni og öðrum heimilistækjum sem gengu fyrir rafmagni og hún gat ekki notað í þá tíma eða daga sem við vorum án straums.
En þar sem hún var ekki  viðræðuhæf í rafmagnsleysinu var bara best að láta hana eiga sig á meðan.

Ég skil mömmu í dag.
Ég er líka ótrúlega þakklát bæði mömmu og Gunna fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að flytja til Hjalteyrar.
Þegar ég var unglingur og var spurð að því hvaðan ég væri sagði ég alltaf að ég væri Hjalteyringur.
Í dag segist ég bara vera Íslendingur. Eða að ég sé ættuð frá Ólafsfirði og Borgarfirði Eystra.
Finnst ég ekki hafa rétt á að segja Hjalteyingur enda bjuggum við bara í ca 4 ár þar.

hjalt1 Séð niður á eyrinna.
Verksmiðjan og allt góssið.

Held að þessi mynd verði stærri ef er klikkað á hana.
Þá sést líka nafnið á þeim sem tók hana og ég vona að ég verði ekki kærð fyrir þjófnað.
   Þarna sést byggðin upp í brekkunni. 
 



hjalt3

 

Við bjuggum í húsinnu efst til vinstri.
Ef báðar myndirnar eru skoðaðar má sjá að húsin á eyrinni eru þau sömu, bara tekin frá sitt hvoru sjónarhorninu.


Þið sem nenntuð svona langt Smile have a nice day.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Falleg færsla.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.8.2008 kl. 08:51

2 Smámynd: Elísabet  Sigurðardóttir

Vá hvað þetta hefur verið mikið ævintýri.  Ég hélt alltaf að þú værir einhversstaðar frá Akureyri.

Knús og eigðu góðan dag.

Elísabet Sigurðardóttir, 20.8.2008 kl. 09:03

3 Smámynd: Hulla Dan

Takk Jenný

Beta: Já já ég bjó þar líka. Mamma er held ég smá sígauni, flutti ansi oft.

Hulla Dan, 20.8.2008 kl. 09:08

4 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Þetta hefur verið algjört ævintýri fyrir ykkur. Gaman að rifja upp sögur frá því að maður var barn.Voru það ekki bestu árin, engar áhyggjur af neinu

Hafðu það gott Hullan mín

Kristín Gunnarsdóttir, 20.8.2008 kl. 09:33

5 Smámynd: Guðrún Þorleifs

... og minningarnar streyma 

... og yes við erum ættaðar frá Ólafsfirði

Guðrún Þorleifs, 20.8.2008 kl. 09:56

6 identicon

Mikið rosalega var þettað skemmtileg lesning, skil þig vel ég hugsa líka stundum til þess tíma þegar maður var lítill og laus við alla ábyrgð, ja nema á sjálfum sér, þá var maður oft ligeglad og brallaði eitthvað sem maður hefur enn ekki sagt frá. 

Bína (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 13:46

7 Smámynd: Agný

Þegar mann dreymir æskuslóðir og gamla tíma þá getur verið að maður þurfi að vinna í einhverju tengt því...eitthvað með rætur sínar...en hvað veit ég svo sem  

Lítill er heimurinn....ég þekki fólk sem býr á Hjalteyrinni  og einnig sem er flutt þaðan og inn á Akureyri..Frændfólk mitt....Ég er nefnilega Eyfirðingur , uppalin ca 30 km innan við Akureyri, bjó líka á Akureyri  4 ár minnir mig...en svo búa foreldrar mínir á Árskógsströndinni í dag... Ég á líka ættingja á Ólafsfirði (þó ég þekki þá ekki)...er skagfirðingur í aðra ættina og þingeyingur í hina og svo fædd í Eyjafirði... Þvílíkur kokkteill ...alias....þineyska loftið + eyfirski hrokinn +  skagfirski rembingurinn....shake it together and you get me...og búa svo í Borgaanesi....púff....ja...sko ég get enn ekki sagt að ég sé Borgnesingur þó ég sé búin að búa hér í 21 ár...(vá...) ég "bý" bara í Borgarnesi...en að ég verði Borgnesingur....neiiiiiii....

Takk fyrir skemmtilega færslu

Agný, 20.8.2008 kl. 13:49

8 Smámynd: Unnur R. H.

Mikið skil ég ykkur báðar, þig og mömmu þína. Þig fyrir að upplifa dvölina þar sem himnaríki og hana fyrir að upplifa þetta sem helvíti. Alveg man ég eftir þeim tímum sem ég var barn á Akureyri og snjórinn varð ævintýraveröld meðan fullorðnir blótuðu honum í sand og ösku Í dag tek ég afstöðu fullorðna fólksins, ég bara þoli ekki mikinn snjó. Gaman að lesa færsluna þína, það er oft svo gott að muna eftir barninu sem maður var, hafðu það sem best

Unnur R. H., 21.8.2008 kl. 09:40

9 Smámynd: Hulla Dan

Agný: forvitni mín er gríðarleg. Þekkiru einhvern sem ég þekki??? Erum við kannski skyldar???

Unnur: Ótrúlega gaman að sjá þig hérna loksins   Vona að þú hafið það sem best.

Hulla Dan, 21.8.2008 kl. 09:43

10 identicon

:) Það var óskaplega gaman að lesa þetta... Og mig langar ótrúlega mikið að kíkja þangað :) Takk fyrir þessa færslu elsku systir

Beggi Dan (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband