30.4.2008 | 12:13
Undirbúningurinn að hefjast :)
Í dag ætla ég að byrja að undirbúa fermingu Atla Hauks sem er á sunnudaginn.
Ég er ekki búin að gera handtak, en búin að hugsa dálítið í gær og í nótt. Það er allavega byrjunin.
Nú er ég bara að bíða eftir að Eiki komi heim úr vinnu svo ég geti farið að þræða fiskbúðir suðurjótlands í von um að finna humar á þannig verði, að ég neyðist ekki til að taka að mér aukavinnu á grensanum.
Drengurinn vill helst af öllu humar og þar sem hann hefur ekki beðið um neitt svo til, fyrir utan fötin sem pabbi hans er búinn að kaupa, þá verður látið að ósk hans ef mögulegt er.
Svo fékk ég þá dásamlegu hugmynd að leigja partýtjald því það er sennilega miklu huggulegra en að kúldrast hérna inni.
Þeir (veðurguðirnir) eru búnir að breyta veðrinu á sunnudaginn. Í stað rigningar eru þeir búnir að setja inn sól og blíðu og 18 °c. Það er nokkuð sem gleður mitt litla hjarta. Ekki oft á ári sem ég óska eftir góðu veðri og finnst bara sjálfsagt að það sé látið eftir mér.
Atli Haukur er búinn að láta klippa sig. Hann er ekkert smá fallegur svona.
Ég var orðin hræðilega hrædd um að það væru mistök að láta hann klippa sig stutt. Hann er búinn að vera ansi loðinn í 3 ár núna og ég orðin vön honum þannig.
Ég var líka rosalega hrædd um að hann yrði ljótur Vei nú ekki alveg hvernig mér datt það í hug, en það virðist bara vera þannig með mig, að ef ég er undir álagi af einhverri gerð, þá brýst það út í einhverju svona kjaftæði og bilun.
Ég lét svona allar meðgöngurnar til dæmis.
Þegar ég var orðin fullviss um að ekkert væri að börnunum mínum, líkamlegt eins og klofinn hryggur og vatnshöfuð, hjartagallar og fleira, enda alltaf í sónar, fékk ég þá frábæru hugmynd að mögulega yrðu börnin mín ljót. Og jafnvel leiðinleg. Aðallega ljót samt.
Þetta er náttúrulega bilun, og ég viðurkenni það fúslega að ég sé ofboðslega biluð á köflum.
Alla vega var meðgangan með Dönu auðveldust að þessu leiti. Ég hafði jú engan samanburð. En var engu að síður mjög hrædd um að fá ljótt barn.
Eftir að Dana kom í heiminn, fegurst allra barna, og ég varð ólétt af Lenu, komst bara sú hugsun að að Lena yrði ljót. Allir mundu dáðst að Dönu og líta svo skringilega á Lenu og ekki segja orð.
Ég þjáðist af þessari brenglun í marga mánuði.
Svo fæddist Lena og ég fékk eitt fallegt barn til viðbótar.
Þarna var ég orðin voðalega örugg um að Óli Rúnar væri bara djöfull góður til undaneldis... Þannig að ég skildi við hann! Ætli það sé ekki merki um og ég sé haldin sjálfspíningarhvöt?
Fékk mér pabba hans Atla Hauks og við tóku fleiri martraðir um ljót börn.
Hvað ef Atli Haukur greyið yrði nú hræðilega ljótur. Það er náttúrulega bara erfitt að vera ljótastur af systkinunum. Vissi náttúrulega ekkert hvernig pabbi hans væri í barnagerðum og leið því vítiskvalir meðan ég beið eftir að hann liti dagsins ljós.
Þegar hann fæddist, fannst mér hann reyndar pínu ófríður, en á fallegan hátt. Ég varaði meiri að segja pabba við, þegar hann kom til að kíkja á kútinn.
En nokkrum tímum seinna var hann orðinn bráðfallegur og pabbi fékk aldrei að sjá hann ljótan. Enda hélt hann að ég væri að ljúga.
Þar þarf nú varla að segja frá því að ég er spennufíkill mikill og skipti því um mann fljótlega eftir að Atli Haukur fæddist, til að storka örlygunum.
Ég veit að mörg ykkar hugsa núna... "Vá hún er ekki heil" og kannski er það bara rétt. Kannski er ég bara illagefinn kjáni (Sérstök kona) að blaðra svona um það sem engum kemur við, en... só.
Alla vega ákvað ég að prófa fegurðar genin mín eina ferðina enn.
Ég var nefnilega orðin nokkuð sjúr á að fegurð barnanna kæmi frá mér en ekki pöbbum þeirra.
Á óléttu Júlíusar fór ég samt að efast um þessa kenningu mína. Sá fyrir mér barna sem væri blanda af okkur Eika. Þá meina ég bókstaflega blanda af okkur. Með nefið hans Eika, og hökuna mína, sem passa ekki saman. Ennið mitt og kollvikin hans Eika. Varirnar mínar og skeggvöxtinn hans Eika ( ef þetta yrði stelpa) Endalausar áhyggjur.
Júlli minn fæddist svo í sigurkufli, fallegur eins og hin börnin og ég ákvað að nóg væri komið af sjálfskaparkvölum og ég hætt í barneignum.
Verð ég svo ekki bara ólétt eina ferðina en, og hef ennþá ekki hugmynd um hvernig. Þó að ég geri mér fulla grein fyrir hvernig börnin verða til.
Hræðileg meðganga, ég dreymdi meiri að segja ljót börn. Fór líka að fá áhyggjur af því að fá voðalega ljótt barn og sjá það kannski ekki sjálf. Hverjum finnst jú sinn fugl fagur.
Ég man ég tók loforð af Jóu um að ljúga ekki að mér. Hún lýgur ekki að börn séu falleg ef henni finnst þau ljót. Hún er nú kannski ekkert að flagga því, en ekki spyrja systur mína að einhverju viðkvæmu nema að þú sért tilbúin að heyra hennar álit og hreinskilið svar.
Allavega var Jói eins og lítil geimvera þegar hann fæddist. Að sjálfsögðu fannst mér hann fallegasta barnið á deildinni og taldi mér trú um að starfsfólkinu þar fyndist það líka.
Í dag held ég að ég líti heilbrigt á börnin mín. Þau eru öll vel af guði gerð og falleg með eindæmum.
Þau hafa öll farið á ljótt tímabil... eða ófrítt tímabil, en öll orðin falleg aftur.
Set eina mynd af Jóa og Atla Hauk inn. Júlli er hjá Dönu og því set ég eina af honum seinna.
Athugasemdir
Þú ert frábær Hulla Við erum komin langt með undirbúninginn á þessu heimili. (Gerum reyndar ekki svo mikið sjálf...og þó??) Kostnaðurinn er gígantískur, enda fáum við 180 mannsi í boðið.
Þú og börnin þín. Þau voru voða sæt, en að hugsa um það ólétt hvort barnið verði ljótt eður ei, það er hreint það ómögulegasta sem ég hef á ævinni heyrt Ég var geðveikislega hrædd um að eitthvað yrði að elsta barninu mínu. Það mátti ekki vera til neitt nema nærföt áður en hún kom í heiminn. Annars fannst mér ég vera að storka örlögunum. Hún fæddist, reyndar með bilaða fætur, en eftir 5 mínútur fannst mér hún vera með fallegustu fæturna.
Miðjan mín var perfect barn og er enn
Með Snorra segi ég eins og þú, ég hef ekki hugmynd um hvernig hann varð til, en hann kom, svo heilbrigður og fínn í alla staði. Svona er lífið, óútreiknanlegt!
Rúna Guðfinnsdóttir, 30.4.2008 kl. 13:11
Mikil fegurðargen hefður þú frænka Humm.... já og fjörugt ímyndunarafl
Gangi þér vel á humarveiðunum, svo og í öðrum undirbúning. Þekki þetta með að plana í huganum, það er fín aðferð ... finnst mér
Flottir guttar á myndinni hér fyrir ofan
Knús
Guðrún Þorleifs, 30.4.2008 kl. 13:58
Gódur pistill og skemmtilegur thad er ágætt ad vera soldid´gúgú med...svoleidis fólk fíla ég best..enda ein af "theim"..hehe ..
Gangi ykkur sem best á sunnudaginn og megi nú vedurgudirnir vera med á nótunum og gera fallegan dag fyrir fallega drenginn thinn já their eru bara asskoti myndarlegir strákarnir
Eigdu góda vikurest
María Guðmundsdóttir, 30.4.2008 kl. 14:27
Hæ þú sætasta, úr því þú nú ert byrjuð á undirbúningnum var ég að spá.. Ég geri ráð fyrir að vera boðið í fermingu þrátt fyrir að boðskortið hafi nú ekki borist ennþá hmmmmm. En það væri vel þegið að fá tíma og staðsetningu fyrir mætingu, svona umfram það að það sé á sunnudaginn :D Sjáumst von bráðar og gangi þér vel með lokaundirbúninginn. Knús á línuna frá mér.
Stína (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 15:33
Þetta er svo týpiskt þú Hulla mín 4 dagar í fermingu og allur undirbúningurinn í hugsunum,, enn þrátt fyrir allt tekst þetta alltaf hjá þér. Vildi stundum óska þess að ég gæti verið svona cool á því og verið ekki á hlaupum mörgum mánuðum fyrir tíman til að undirbúa veislur. Enn svona erum við misjöfn ég þarf minn tíma sem er lengri enn þinn Hlakka til að sjá ykkur öll. Sækji mömmu á morgun kl 12 á flugvöllinn og svo verður brunað í sveitina til ykkar.
Hlakka til að sjá ykkur öll krúslurnar mínar.
Linda (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 08:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.