3.11.2008 | 10:13
Sjálfsskoðun.
Síðustu dagar hafa verið svakalega undarlegir hjá mér.
Þeir hafa einkennst af annað hvort ógurlegri kæti og sjálfsöryggi eða af depurð og fýlu yfir óréttlæti sem mér finnst eiga sér stað í heimi kvenna í vanþakklátum störfum.
Þannig er að ég er í einu svona starfi og valdi mér það sjálf.
Eyddi mörgum mánuðum í nám til að geta unnið við það að hugsa um gamalmenni á sem bestan og óeigingjarnastan hátt.
Gerði mér fulla grein fyrir að þetta væri illa launað starf og að gamalt fólk verður ansi oft mikið geðveikt og ég gæti á það á hættu að verða fyrir allskonar áreiti.
Það er til dæmis allt annað en gaman að reyna að hjálpa fólki við það allra nauðsynlegasta og fá í staðinn hráka í andlitið, hnefa, eiga á hættu að fötin séu rifin utan af manni, nú eða fá að heyra þau ljótustu orð sem fyrir finnast.
Það er heldur ekkert gaman eða gefandi að þrífa kúk af veggjum en fólk sem málar með kúk er heldur ekkert algengt og er þá yfirleitt mjög veikt en á samt sama tilverurétt og þeir sem eru svo heppnir að veikjast ekki á þann háttinn.
En mér fannst allir þessir gallar vega lítið í samanburði við að geta kannski gert einhverjum lífið léttara og brosin sem þakklát og glöð gamalmenni gefa manni eru þau fallegustu. Og ég hef verið sátt í minni vinnu.
Í sumar bauðst mér svo að taka 2 fastar næturvaktir í mánuði sem ég þáði. Alltaf gott og gaman að prófa eitthvað nýtt og svo sá ég fram á að fá aðeins hærri laun.
Ég er slugsi af guðsnáð og allt sem heitir launaseðlar og tímaseðlar hef ég ekki mikið verið að setja mig inn í. Já agalegur aulaskapur en ég geri bara ráð fyrir að ég fái rétt laun fyrir það sem ég vinn.
Svo núna um daginn fór ég aðeins að reikna út hvað mikið þessar tvær næturvaktir gefa mér í vasann í hverjum mánuði. Ég varð ekki glöð þegar ég sá að fyrir þessar tvær vaktir fæ ég 200 dk aukalega útborgaðar.
Ég fór í svakalega fýlu útí sjálfa mig og fannst ég auli dauðans og hafa ekki spáð aðeins í þessu fyrr.
Svo þegar ég var búin að rífa mig andlega á hol ákvað ég að segja upp þessum tveimur næturvöktum.
Finnst það ekki borga sig að snúa öllum sólarhringnum við og eyðileggja í raun 3 daga, vera ein á vakt með 27 gamalmenni fyrir 200 kr aukalega.
Þá get ég alveg eins tekið eina kvöldvakt fyrir vikarinn og fengið 1000 kall í vasann fyrir það.
Ég vaknaði svo hamingjusöm með þessa ákvörðun mína og fór svo upp til Maríu til að láta hana vita að ég vildi hætta þessum föstu næturvöktum.
Ég komst nú ekki langt, því um leið og ég sagði henni að ég vildi segja þeim upp greip yfirmaður hennar fram í fyrir mér. María náði ekki einu sinni að svara.
Þessi yfirmaður (sem þarna féll 300 metra í áliti hjá mér) sagði mér að það væri ekki hægt að segja þeim upp og ég gæti ekki bara komið svona inn og tilkynnt að ég vildi þær ekki meira.
Hummm. Ein sem ég vinn með var búin að segja mér að það væri sennilega best fyrir mig að ljúga og segja að ég gæti þetta ekki meir útaf andlegu álagi og stressi og hvað veit ég. Væri líka gott að undirstrika það með að fella nokkur tár.
En þar sem ég er ofsalega vel uppalin og heiðarleg blés ég á það og ákvað að koma hreint fram. Sé akkúrat enga ástæðu til að ljúga á sjálfa mig einhverjum veikleika. Hvað þá andlegum veikleika.
Þegar yfirmaðurinn vildi fá að vita af hverju mér dytti svona vitleysa í hug og ég sagði að mér fyndist ekki borga sig að eyðileggja 3 daga fyrir 200 kall, fauk greinilega dálítið í hana og þegar ég sagði að ég gæti en tekið næturvaktir sem extra vaktir til að fá örlítið meira fyrir þær, uppveðraðist hún öll og sagði mér að framvegis gæti ég ekki gert ráð fyrir fá extra vaktirnar mínar útborgaðar.
Åbenrå kommune er nefnilega að spara og þess vegna á að setja allar extra vaktir inn sem afspesering, sem þýðir að maður geti tekið frí út á þá tíma sem maður hefur tekið aukalega. En maður getur samt ekki alveg ráðið sjálfur hvenær maður tekur frí. Það fer eftir því hvernig stendur á með aukafólk. Maður getur lagt fram óskir og svo er farið yfir hlutina. Það er eitthvað sem ég á mjög erfitt að sætta mig við.
Áður en ég fór spurði ég hana að því hvort það væri virkilega þannig að ég þyrfti að segja upp vinnunni minni bara til að losna undan þessum 2 næturvöktum. "Það er þitt eigið vel" sagði hún... og ég fór heim og skrifaði uppsagnarbréf.
Ekki glöð og ánægð, en þetta er bara eitthvað sem ég vill ekki sætta mig við og ætla ekki að láta bjóða mér.
Ég tek aukavinnu akkúrat vegna þess að ég þarf að ná endum saman og hef þörf á auka pening. Og ég hef hreinlega ekki efni á að hugsa út í hvað aðrir eiga bágt, hvað þá sveitafélög.
Þannig að nú á ég bara eftir tæpan mánuð í vinnunni minni og þarf þá að kveðja allt gamla fólkið mitt og samstarfsfólk sem mér finnst ömurlega sorglegt.
Það er reyndar alveg nóg af vinnu fyrir mig að sækja um svo ég er ekkert hrædd um að standa uppi atvinnulaus. Ég er búin að fá tilboð um að koma aftur á gamla vinnustaðinn minn og þar sem ég er ótrúlega dugleg og sveigjanlegur vinnukraftur og er til í bæði dag, kvöld og nætur vinnu efast ég ekki um að ég fái vinnu fyrir mánaðarmót. Bara samt eitthvað svo dapurlegt.
Ég einblíni ekkert endilega á elliheimili og er eiginlega bara til í hvað sem er, bara ef ég fæ launin mín útborguð í peningum.
Er búin að skrifa nokkrar umsóknir en það rennur ekki út umsóknarfrestur á þeim fyrr en um miðjan mánuð svo ekkert skýrist fyrr en þá.
Þetta er sennilega það ömurlegasta blogg sem ég hef bloggað og ég skil ykkur svo vel ef þið nennið ekki að lesa það.
Varð bara að koma þessu frá mér.
Athugasemdir
Það virðist vera brotinn pottur á mörgum stöðum Hulla mín. Ég styð þig í þessari ákvörðun þinni. Heiðarleiki kemur sér alltaf best og þessir yfirmenn hafa ekkert upp úr svona derring nema það eitt að missa góða starfskrafta. Láttu þá fjúka, gott hjá þér! Þú dettur örugglega niður á miklu betri vinnu fljótlega, vertu viss.
Kveðja héðan úr sveitinni og fallega haustveðrinu.
Ía Jóhannsdóttir, 3.11.2008 kl. 10:48
Ömurlegt blogg??? Veit ekki... Finnst þú meira að vera lýsa viðhorfi sem við Billi höfum verið að kynnast í okkar störfum. Það tók mig 7 ár að segja mínu starfi upp. Ég var ekki óánægð með launin mín þar, ég var óánægð með að allir áttu að gera eins og enginn mátti vera öðruvísi eða frábær, þá var hann settur í "frysti" eða rakkaður niður og stundum bæði. Fólki fannst betra að vinna eftir duldu markmiði en að væra ærlegt og segja sína skoðun. Að ég entist svo lengi sem raun bar vitni í mínu starfi var vegna þess að ég var ráðin sem leikskólakennari í hlutastarfi inn í frítímaordninguna en átti stórkostlega skemmtilegt samstarf við skólahlutann og vann þar með fólki sem hafði allt annan hugsunarhátt. Til lengri tíma var það mér ekki nóg og ég ákvað að halda á aðrar slóðir og er ekki ósátt með þá ákvörðun. Hún varð mér til góðs. Mér finnst gott að fá að hafa mínar skoðanir og hlusta á annarra skoðanir, án þess að þurfa að hafa þær líka (á yfirborðinu), að vera með fólki sem virðir skoðanamismun, er sveigjanlegt og frábært.
Því brosti ég stolt af þér út í annað þegar ég las bloggið þitt. Í því birtist mér rík réttlætiskennd og hún er mikilvæg.
Gangi þér vel að finna aðra vinnu. Þau sem fá þig í vinnu verða heppin.
Kær kveðja frá námssnótinni á Als
Guðrún Þorleifs, 3.11.2008 kl. 11:04
Takk fyrir þetta snúllurnar mínar
Hulla Dan, 3.11.2008 kl. 11:27
já veistu thetta er BARA frábært hjá thér. Thú lætur ekkert vada yfir thig,stendur fast á thinu og thad er frábær eiginleiki. margur hefdi nú tekid "audveldu"leidina og logid á sig stressi og veikleikum til ad komast létt útur samtalinu..en ónei,ekki hún Hulla Svona á madur ad gera hlutina og engan veginn ødruvisi. Margur gæti tekid thig til fyrirmyndar og ad láta ekki bjóda sér hvad sem er er eitthvad sem vid øll ættum ad hafa ad leidarljósi.
Ømurlegt blogg!!! nei takk,langt i frá. Bara gód lesning og takk fyrir thad
María Guðmundsdóttir, 3.11.2008 kl. 11:56
Sko bara, way to go stelpa!! Maður lætur bara ekki troða á sér ...þú ert flott
en auðvitað er erfitt að skipta fyrirvaralaust um vinnu en þú færð örugglega aðra góða vinnu fljótt
Ragnheiður , 3.11.2008 kl. 12:01
Takk fyrir þetta stelpur
Veit ég fæ aðra vinnu eins og skot, samt ömurlegt að hætta i vinnu sem maður er sáttur við á NÆSTUM allan hátt.
Knús til ykkar.
Hulla Dan, 3.11.2008 kl. 12:13
Mér finnst þú bara flott að hafa ekki látið bjóða þér þessa framkomu.
Stattu þig stelpa og ég vona að þú fáir flottustu vinnuna á lausu.
Jenný Anna Baldursdóttir, 3.11.2008 kl. 14:48
Elsku Hulla.Ég stid tig fullkomlega í tessu öllu.Las pistilinn allann og veit ad tínir vinnuveitendur eru ad gera rangt.Tú lætur bara ekki bjóda tér tetta.
Tad bídur tín önnur vinna handan vid hornid vertu viss.
Hlýjar kvedjur frá Jyderup
Gudrún Hauksdótttir, 3.11.2008 kl. 16:43
Nú er ég stolt af stelpunni minni. Stundum verður maður að taka erfiðar ákvarðanir og oft óþægilegar, þá verður maður að standa með sjálfum sér nákvæmlega sama hvað öðrum finnst á hverju sem gengur.Það má líka spyrja sjálfan sig að því hvort kommúnan þarna , sparaði meira ef svo hefði farið að þú hefðir hreinlega gefist upp og fjölskyldan farið á sveitina eða humm,kommúna! Ég hef ekki alltaf verið ætíð verið vinsælasta manneskjan í fjölskyldunni eða í nágranna og vinahópnum,þegar komið hefur að málum sem þurft hefur að leysa,og orðið að að vinna í og ansi oft endað með að sú gamla hefur gengið í skítverkin. Eitt sinn sagði systir þín við mig; hversvegna gerðurðu þetta?Veistu hvað annað fólk heldur? Mannstu ljúfan mín litla eftir barnaheimilinu norður í landi forðum daga?Þá vildi enginn standa með mér, fólk forðaðist mig eins og pestina,líka þeir sem mest höfðu haft til málanna að leggja en þegar að því kom að standa þurfti við stóru orðin,var annað upp á teninginn, við þetta sat þar til málið leystist og áður umræddu barnaheimili var lokað, þá vildu allir vera vinir mínir.Ég tek þetta svona sem dæmi. Ég er ekki í þennan heim borin til að safna vinsældum og fá stöðugt hrós og þakklæti fyrir. þetta var nú svona útúrdúr. En í fullri alvöru !STATTU MEÐ SJÁLFRI ÞÉR Í ÞESSU MÁLI OG Í ÖLLU ÞVÍ SEM VARÐAR RÉTTLÆTISKENND ÞÍNA!!! Annað mál er það að þú átt eiginmann sem á og mun taka á málunum með þér, gerðu allavega ekki eins og ég sem í svo mörg ár,reyndi að leysa úr öllu ein. Annars er héðan allt gott að frétta, tvær aðgerðir eru ákveðnar á gömlum og stlitnum skrokk móður þinnar og sú fyrri fljótlega,en er enn í afar spennandi og skemmtilegum rannsóknum. Nei enga vorkunn í þetta sinn eru þær sársaukalausar bara svolítið óþægilegar. Ég reyndi að koma til þín meili í gær en sennilega hefur það misheppnast, ég reyni bara aftur. Bið að heilsa ykkur öllum í bili og vittu til, ykkur legst eitthvað til, þín mamma.
Mamma (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 17:11
hæ elsku Hulla minn.vel af ser vikid.manni a ekki ad lata fara svona med ser.haltu afram ad vera stolt.eg er stoltur ad eiga svona akvedinn tengdadottir.knus og koss.
tengdapabba (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 18:28
Hvattningskveðjur til þín kæra frænka. Ég er ánægð með að þú skulir standa með sannfæringu þinni!
Kveðjur frá Pollý frænku
Polly frænka (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 18:33
Elsku Jenný og Jyderupdrottning... Takk fyrir þetta
Mamma: Ég man sko eftir barnaheimilinu og öllu sem því fylgdi... og gott að geta gert þig stolta Finnst þú reyndar (eins og Guðrúnu og fleirum) að þú ættir að stofna bloggsíðu, ég get hjálpað þér Þykir svooo mikið vænt um þig.
Tengdapabba :) : Takk fyrir þetta og knúsaðu kjellu frá mér.
Pollý: Dásamlegt að fá komment frá þér. Vona að þér og þínum líði vel og takk fyrir hana frænku mína, hún er dásamleg manneskja hún dóttir þín
Hulla Dan, 3.11.2008 kl. 20:37
Ég stend eitthundarað prósent með þér Hulla mín í þessu. Ekki að láta berja sig til hlýðni...sei sei nei.
Kveðjur yfir hafið
Rúna Guðfinnsdóttir, 3.11.2008 kl. 20:45
Mér finnst thetta bara svo flott hjá thér. Alveg hárrétt hjá thér, madur á ekki ad láta bjóda sér svona framkomu og thú gerir sjálfum thér engan greida vid ad halda áfram tharna. Vertu stolt af sjálfri thér, thú átt thad alveg skilid. Ég er viss um ad thú færd góda vinnu, med det samme. Mundu, thú ert miklu betri vinnukraftur thegar thú segir thína meiningu og krefst réttinda thinna.
Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 3.11.2008 kl. 22:09
Ja hérna hér. Hverskonar manneskja er þetta sem þú þurftir að díla við þarna?? Ég á ekki til orð. Guði sé lof að þú lést ekki bjóða þér þetta og vonandi færðu starf sem er bæði skemmtilegra, betur launað og þar sem þú ert metin af verðleikum.
Gangi þér sem allra best
Jóna Á. Gísladóttir, 3.11.2008 kl. 22:31
Gott að þú lætur ekki fara svona með þig Hulla mín. Ég dáist að því hvað þú varst ákveðin og hugrökk að láta yfirmenn þína heyra þitt álit og að þú skulir standa fast á þínu. Þau hafa greinilega haldið að það væri hægt að beygja þig svo að þú gæfist upp. Eitt er alveg víst að tap þeirra er mun meira en þitt. Þú færð örugglega góða vinnu en nú hafa þau enga Hullu.
Ég sendi mikið knús og góðar óskir um að þú fáir draumastarf.
Ragna (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:49
Rúna: takk
Hjördís: Takk fyrir þetta. Já mér finnst eiginlega pínulítið undarlegt að sé hægt að skýla sér á bak við einhverjar fáránlegar reglur... Þú kemur ekki skítt fram við starfsfólkið þitt því það má! Þannig bara gerir maður ekki
Sólveig: Takk fyrir þetta.
Jóna: Takk Jóna, það er skrítið hvað fólk getur breyst þegar talað er um peninga.
Hún var á tímabili sá besti yfirmaður sem ég hef nokkurtíma haft... Sorglegt.
Ragna: Málið er nefnilega það að það er mjög auðvelt að beygja konur, og hreinlega brjóta þær... Þær eru bara eitthvað svo ofurviðkvæmar, og ég viðurkenni það alveg fúslega að auðveldast hefði verið að bara láta sem ekkert væri... en þá bara mundi mér alltaf líða illa með það, gæti aldrei brosað framan í hana án þess að finnast ég fölsk, svo þetta er rétta leiðin.
Og það er rétt að nú hafa þau enga Hullu...
Nú er ég farin að skoða draumajobbin
Hulla Dan, 4.11.2008 kl. 08:45
Ég vann eitt sinn á elliheimili, var einn dag.. næsta dag kom ég til vinnu og eftir klukkutíma fór ég og gat ekki hugsað mér að koma aftur..
Ég ber mikla viðrðingu fyrir þeim sem vinna svona vinnu..
Ég hef ekki mikla reynslu á vinnumarkaðinum at all, en ég veit og skil þegar verið er að vaða yfir fólk með ósanngirni og frekju..
Ég vona að þú getir reynt að hugsa um þetta eins jákvætt og hægt er þar sem þetta hlýtur að vera örlítið spennandi tími líka.... hefði mátt bara vera þú sem réðir þessu, en ekki þvinguð af einhverri kellingarbeyglu til að segja af þér eða hlýða
Guðríður Pétursdóttir, 4.11.2008 kl. 09:28
Leiðnlegur yfirmaður, en gott hjá þér að standa á þínu,sendi þér faðmlag
Líney, 4.11.2008 kl. 13:08
Flott hjá þér- maður verður að standa með sjálfum sér 100%- Vittu til, eitthvað frábært starf bíður þín handan við hornið- gangi þér vel sterka kona.
Kv.Dísan
Dísaskvísa, 4.11.2008 kl. 14:13
Elsku Hulla mín, það var rétt hjá þér að hætta í vinnunni, láttu ekki vaða yfir þig eins og oft er gert hér í Danaveldi. Þú ert yndisleg kona
Kristín Gunnarsdóttir, 4.11.2008 kl. 16:00
Frábært hjá þér Hulla og auðvitað áttu ekki að láta bjóða þér þessa vitleysu, hvað heldur þessi kona að hún sé. Það er svo skrítið þegar yfirmenn koma fram við starfsfólk sitt eins og sína eign, ótrúlegt.
Það er alveg á hreinu að þegar maður líkur einhverju þá byrjar eitthvað nýtt og yfirleitt eitthvað miklu betra.
Gangi þér rosalega vel sæta sterka kona.
Elísabet Sigurðardóttir, 4.11.2008 kl. 16:13
Finnst þetta sko allveg hárrét ákvörðun hjá þér. Maður verður hreinlega að passa upp á sjálfan sig, það gerir það enginn annar.
Ég er sko allveg yfir mig hneyksluð á þessum reglum sem virðast gilda þarna. Getur verið að sú sem stjórnar þarna sé bara í einhverjum Hitler leik ?? Ég bara spyr.
Knús á þig skvís
Rakel (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 21:12
Ég segi bara sama og flestir hér uppi, gott hjá þér að láta ekki vaða yfir þig og flott hjá þér að skrifa bara uppsagnabréfið. Virkilega lúarleg framkoma hjá yfirmönnum þínum að taka svona við þér þegar þú ert að reyna að vera heiðarleg gagnvart þeim.
Ég segi bara ekki annað en að það verður þeirra missir að hafa ekki komið betur fram við þig og reynt að finna farsæla lausn fyrir bæði þig og þau!
Gangi þér bara sem allra best og vertu bara stolt og sterk - og mundu bara alltaf að enginn hefur rétt á því að traðka svona á neinum - allra síst yfirmenn manns!+
Knús og kram á þig skottið mitt ..
Tiger, 5.11.2008 kl. 18:34
Hæ ljúfust Vildi bara senda þér stuðnings knús. Aldrei láta aðra ráðskast með sig
Linda (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.