Færsluflokkur: Bloggar
10.3.2008 | 17:24
Lobo
Hann er nú kannski ekkert með útlitið með sér þessi, en ÓMG hvað ég dýrkaði - og geri en- þetta lag.
Við Kolla vinkona spiluðum það á tímabili út í eitt...
Vá hva ég sakna hennar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.3.2008 | 12:18
Fermingar og fyllirí
Atli kom til mín um daginn og sagði mér að hann væri að fara á fyllirí þann 4. maí
Uhhh "nei sagði ég, þú ert að fara að fermast þá en ekki að fara á fyllirí"
- Já en allir strákarnir í mínum bekk ætla á fyllirí...
Mér er nú bara alveg sama, þú ferð sko ekkert á eitthvað fyllirí, þú ert barn!
- Ok, ég fæ mér þá bara einn bjór í staðinn-
Það er ekki smuga að Atli Haukur fái einn bjór. Ekki glæta.
Enda fannst mér hann slaka pínu á þegar ég sagði honum að það væri ekki séns.
Ég talaði við eina mömmuna frá skólanum og hún staðfesti að sumir foreldrar litu þannig að á eftir fermingu væru börnin orðin nógu gömul til að geta farið að "æfa sig", en bara ef þau væru undir eftirliti!!!
Hálfvitar!!!
Allavega fær Atli ekki að taka þátt í svona. Ekki einu sinni undir eftirliti.
Ég var sjálf bara 14 þegar ég smakkaði áfengi í fyrsta sinn. (fyrir utan að hafa lappið froðuna af heimagerða bjórnum hans pabba).
Það var ekki undir "eftirliti" og ég veit að hún móðir mín hefði aldrei tekið það í mál þó ég hefði spurt fallega um leyfi.
Ég á sjálf engar minningar frá þessu kvöldi, nema áður en ég helti í mig þessu hálfa glasi af Sjeníver. Ég held hinsvegar að mamma mín eigi ekki góðar minningar frá þessari nótt.
Mamma mín var að vinna sem þjónn í Sjallanum á Akureyri og ég -stóra stelpan- að passa Boggu og Begga.
Ég hafði passað 1000 sinnum áður og var vel treystandi.
Ein vinkona mín var hjá mér þetta kvöld og við höfðum boðið tveimur strákum í heimsókn.
Þetta var í fyrsta sinn sem ég bauð einhverjum öðrum en vinkonu minni að vera hjá mér.
Annar strákurinn var kallaður Göndli. Hinn Maggi.
Þeir voru jafngamlir mér, en ekki í sama bekk.
Eftir þetta hálfa glas man ég svo til ekki neitt.
Rámar í eitt og annað. en það er líka allt og sumt.
Morguninn eftir vaknaði ég hins vegar með timburmenni dauðans og mömmu sem var ekki kát.
Þegar hún kom heim um 5 leitið, dauðþreytt eftir að hafa staðið upp á endann alla nóttina, blasti við rosalega hreint heimili. Það var sem sé ekki venjan þegar ég var að passa. Þá fékk hún fyrsta sjokkið.
Sjokk númer tvö, skall á þegar hún gekk inn í sjónvarpsholið og sá þar Begga bróðir og Göndla, sem hún þekkti ekki neitt og hafði aldrei sé áður, horfa á stundina okkar á vídeói.
Sjokk númer 3. Hún gekk inn í herbergið hjá barnapíunni og fann hana sofnandi (rænulausa) með gubbufötu við rúmið og öll handklæði hússins í rúminu hjá sér.
Ég held að ég hafi ekkert lagt það í vana minn að vera dónaleg við foreldra mína. En eftir að ég vaknaði þarna um morguninn og við tóku endalausar spurningar og ásakanir og nöldur að mínu mati, enda ótrúlega "veik" bað ég mömmu um að hætta að tuða.
Ég er líka viss um að það hafi verið pínu ruddalega sagt. Allavega varð mamma ekkert glaðari.
Mamma gerði eins og flestir ábyrgðarfullir foreldrar hefðu gert. Hún ákvað að hringja til foreldra strákana. Ekki beinlínis það sem mér fannst töff.
Þar sem ég þóttist ekkert vita um símanúmer hjá strákunum, gerði hún símabókina mína upptæka.
Fyrst hringdi hún í mömmu hans Göndla. Sem heitir í raun Sigurjón. En það stóð Göndli í símabókinni og ég þóttist ekkert vita hvað hann héti, í veikri von að mamma mundi þá gefast upp og setja mig í straff í staðinn, en hún hringdi samt. Enda ótrúlegt hvað konan er þrjósk.
- Halló, er þetta móðir hans Gönduls, sagði hún í símann.
Greinilega ekki góð í beygingum. Mamma Göndla, ekki Gönduls!
Mér sortnaði fyrir augun og fannst ég bara eiga eftir að hoppa í hafið til að ljúka þessari niðurlægingu sem ég hafði orðið fyrir.
Til að toppa allt, kynnti hún sig sem móður HUGLJÚFAR!!! Greit.
Ég náði að hvísla eða skrifa á blað hans rétta nafn til að reyna að gera hlutina bærilegri, þeir urðu hreint ekki bærilegri.
Eftir að hafa átt (að hennar sögn) gott samtal við mömmu Göndla, hrósaði stráknum meiri að segja fyrir að sinna Begga þar til hún kom heim, hringdi hún í mömmu Magga.
Ég gat ekki meira og forðaði mér inní herbergi. Þangað kom hún svo stormandi eftir ekki langa stund og sagði mig vera að ljúga að Maggi hefði verið með okkur.
Mamma hans varð nefnilega ekki glöð þegar hún heyrði í mömmu, og sagði sinn strák hafa verið heima að spila tölvuspil allt kvöldið.
Þetta fannst mér ofsalega furðulegt... Þar til ég komst að því að mamma hafði hringt í allt annan Magga.
Restin af lífi mínu hrundi til grunna og ég ákvað að fara aldrei meir út fyrir hússins dyr, nema kannski til að koma mér út á flugvöll, og langt langt í burtu frá þessu öllu.
Ég gaf mömmu aldrei númerið hjá rétta Magganum. En bæði Göndli og Maggi komu hinsvegar í heimsókn til mömmu, eftir að þeir fréttu að hún hefði hringt í hinn Maggan, og báðust afsökunar og voru kurteisir og prúðir og lofuðu öllu fögru.
Mamma skít féll fyrir þeim og hætti öllu símabrjálæði.
Ég fór út fyrir hússins dyr aftur. Það var allt annað en auðvelt að mæta í skólann og reyna að útskýra fyrir hinum Magganum að mamma væri ekki skrítin sem slíkt. Ætti bara svakalega erfitt og væri ekki eins og fólk er flest.
Ég smakkaði ekki áfengi í mörg ár eftir þetta, enda ekki leyfður bjór á Íslandinu á þessum tímum og ég get ekki sagt að annað áfengi höfði beint til mín.
Atli fær ekki mitt samþykki til að drekka. Punktur.
Mojn Hulla Pulla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.3.2008 | 17:18
Áramótaheit...
Um áramótin síðustu setti ég mér mál.
Þar sem ég var ekki með þessa síðu þá, ætla ég að birta hluta af blogginu sem ég gerði þá...
Ég strengdi áramótaheit. Eitt eins og venjulega. Þetta eina sem ég veit að ég get staðið við,allavega hingað til. Það er að vera góð og yndisleg á þessu nýja ári.
Svo setti ég mér mál. Geri það alltaf við hliðina á strengnum. Tekst misjafnlega að ná þessum málum mínum og það er bara allt í lagi. Ég reyni a.m.k.
Málið mitt að þessu sinni er að losa okkur við allar ónauðsynlegar skuldir. Það er ekkert erfitt. En næsta mál er erfiðara. Ég ætla að losna við umframspikið mitt sem hefur verið að safnast fyrir á miðjunni á mér síðustu 4 ár. Það ætla ég að gera fyrir 1.apríl. Það er erfitt. Og þar sem ég er ofsalega lítið fyrir erfiða hluti og hreyfingu og hvað þá að borða eitthvað sem mig langar ekki í . Eða neita mér um eitthvað sem mig langar í, þá er ég með lausn á því, eins og svo mörgu öðru. Nefnilega þetta.
Ef ég verð ennþá feitt 1.apríl, þá ætla ég að reyna að verða ólétt til að hafa afsökun fyrir því að vera feit. Það verður líka erfitt þar sem ég er í kaskó. En ég ætla a.m.k að reyna.
Veit að það gleður hann Eika minn.
Nú er kominn mars og ég er ennþá með örlítinn auka kepp, sem virðist vera andskotanum erfiðara að losna við. Samt er ég næstum hætt að drekka bjórinn sem ég elska svoooo mikið.
Ætli endi ekki með því að ég neyðist til að sprikla eitthvað síðustu dagana í mars.
Get ekki sagt að sú tilhugsun gleðji mig neitt svakalega, en þetta skal takast
Hafið gott kvöld. Hulla Pulla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.3.2008 | 21:11
Hænan og konan :)
Viti þið af hverju konan er með einni heiacellu fleirri en hænan???
Það er til þess að hún hlaupi ekki gaggandi og kúkandi útum allt
Ómg.... Elska þennan brandara.
Held ég hafi verið 10 ára þegar ég lærði hann.
Á sama tíma lærði ég líka óteljandi klepparabrandara, sem ég gat endalaust kvalið hana stóru systir mína með.
Stundum efast ég um að é hafi veri skemmtilegur krakki
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.3.2008 | 14:17
Minningabrot.
Ég man ótrúlega langt aftur. Finnst mér allavega.
Þegar ég var lítil (þarna milli 4 og 6) bjuggu afi og amma í Víkurbakkanum.
Ég man að Núpsbakki (eða Núparbakki) lá samhliða Víkurbakkanum og bara göngustígur á milli.
Þar bjó Pollý frænka. Ég man eftir henni þó ég muni ekki hvernig hún leit út, fyrir utan að vera yngri en amma og ég mundi ekki þekkja hana í sjón í dag.
Vegna þess að það lá aðeins göngustígur á milli þessara tveggja bakka, fannst ömmu óhætt að senda mig til Pollýar frænku ef hana vantaði eitthvað t.d. egg.
Í mínum minningum fór ég þó nokkuð oft að ná í egg til Pollýar. Trúi samt ekki að hún hafi verið með hænur út á svölum...
Fyrir ein jólin voru skömmtuð egg, og þar sem amma bakaði ótrúlega mikið og var búin að senda okkur systurnar í sitthvoru lagi upp í Breiðholtskjör til að fá sitthvorn eggjaskammtinn, og fara sjálf og senda líka pabba, þá dettur mér í hug að Pollý hafi átt auka egg sem hún hefur lánað ömmu. Sem er samt voðalega skrítið vegna þess að ég man að ég var í strigaskóm og stuttermabol, og þannig er maður ekki klæddur í desember. Hummm
Ég man líka að hjá Pollý var teppalagður stigi niður, hægra megin þegar maður kom inn.
Og Pollý (eða kannski frekar börnin hennar) áttu búðarkassa sem var búinn til úr pappakassa. Ótrúlega flottur, og börnin hennar það stór að þau voru ekkert mikið að leika með hann lengur.
Það var góð lykt inni hjá Pollý en ég geri mér ekki grein fyrir hvort þessi lykt stafaði af kleinum eða kanilsnúðum. Finnst samt að það hljóti að vera annað hvort.
Og Pollý átti hund. Man að hann var þó nokkuð skemmtilegri en Heddý og Læla, sem amma átti á þessum tíma og áttu það til að glefsa í mig ef ég reyndi að koma þeim í einhver föt.
Veit samt að ég rugla eitthvað með þennan hund, því ég þekkti annan hund á svipuðum tíma sem treður sér inn í allar hunda minningar frá því að ég var lítil. Það er hún Dúna frá Ólafsfirði. Annað hvor Ranna eða Kolla áttu hana og hún var stór, allavega miða við mig, og hvít og yndisleg.
Hvort þessar minningar stemmi við annarra manna minningar er ekkert endilega víst.
Það er þá ekki í fyrsta sinn sem það gerist.
Eigið góðan eftirmiðdag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.3.2008 | 02:30
Spuni
Í síðustu viku lék ég í spuna verki. Það er eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Og ég hef gert margt sem er erfitt.
Þar sem ég er bundin þagnarskyldu mun ég skrifa í rósum... þær eru í þessu tilfelli alsettar þyrnum
Ég er kölluð út tvö kvöld í röð til að sitja fasta vakt hjá konu sem er lítið eldri en ég.
Konu sem er 36 kg og mikið illa farin eftir margra ára misnotkun á áfengi og sennilega alskonar lyfjum líka.
Konu sem getur ekki gengið, vegna afleiðinga lífernisins.
Konu sem á 2 syni sem hún hefur ekki séð, guð má vita hvað lengi.
Konu sem gerði sér enga grein fyir að synir hennar eru 23 og 29 ára, en ekki 9 og 15 ára.
Konu sem var allveg viss um að nú væri ári 1995
Konu sem virðist ekki eiga sama rétt og við hin, í hinu frábæra danska heilbrigðiskerfi.
Konu sem "valdi" þessa leið sjálf.
Konu sem mér þykir óskaplega vænt um og vildi óska að ég hefði menntun, gáfur og getu til að hjálpa.
Ég er sem sagt kölluð út til að sinna þessari vinkonu minni svo að annað starfsfólk geti sinnt öðrum einstaklingum og þeirra þörfum.
Þegar ég mæti fyrsta kvöldið situr Frú Fjóla í hjólastólnum sínum út á miðjum gangi og er hreinlega vitstola. Hræðslan streymir úr augunu á henni og það fer ekki framm hjá neinum (nema kannski kvöldvaktinni) að Frú Fjóla er hreinlega að missa vitið úr hræðlu. Enda ekki skrýtið.
Svæðið er í kringum heimilið sem hún býr á er umkringt af ný nasistum. Skotið er á húsið og börn eru deyjandi. Frú Fjóla hefur greinilega orðið vitni af hinum hræðilegustu hlutum rétt áður en ég kom og er gáttuð á að ég hafi ekki verið plöffuð niður í andyrinu.
Við flýtum okkur inn á herbergi þar sem okkur er fært kaffi og með því (í alvörunni s.s) og yfir kaffinu fer þessi lífsreynda kona að segja mér frá atburðarrás kvöldsins. Ansi ruglingslega en mér datt ekki í hug annað en að "trúa" henni og reyna að hughreysta hana. Ég gekk meiri að segja svo langt -að hennar mati- að reyna að ljúga að henni að þetta væri yfirstaðið og að hún væri örugg núna.
Meðan við drukkum kaffið svifu flugvélar yfir heimilið og stundum var kastað út sprengjum.
Hún heyrði og sá útum gluggan deyjandi fólk og hermenn með byssur sem voru að leita að henni.
Ég sóð upp og dróg gardínurnar fyrir gluggan.
Ég sótti spil og reyndi eftir bestu getu að dreifa huganum hjá henni með Ólsen Ólsen, en það er ekki þægilegt að reyna að spila þegar allar þessar hörmungar dynja á rétt fyrir utan gluggan hjá manni. Þá fer maður líka að svindla, útskýrði hún. Og gerði það svo!
Skyndilega mundi hún svo eftir því að henni vantaði brúðarkjólinn sinn!
Þegar ég spurði Frú Fjólu hvað í ósköpunum hún ætlaði að gera við brúðarkjól akkúrat þetta kvöld, leit hún á mig eins og vantaði eitthvað stórkostlega mikið í mig. " Hvað helduru?? ég er að fara að gifta mig" Ég hefði líka alveg getað sagt mér það sjálf. Hvað annað ætti hún að vilja með brúðarkjól.
Ég náði samt að tala hana inn á að það væri nú sennilega einhver ruglingur með dagsettninguna og lofði að fara í að kanna þetta strax daginn eftir.
Þegar leið á kvöldið róaðist Frú Fjóla það mikið að hún gat sagt mér helling um sjálfa sig og fjölskyldu sína frá því að hún var ung.
Ég tók mér blað og penna og stakk upp á að við mundum búa til einhverskonar fjölskyldutré fyrir hana. Það leist henni stórvel á og við reyndum okkar besta. Hvort nöfn og annað er rétt er ekki gott að segja en ég held samt að hún sé nokkuð klár þegar er talað um löngu liðinn tíma.
Eftir að hafa komið henni í rúmið fór ég heim.
Eftir þessa 4 eða 5 tíma, var ég eins þreytt og þegar ég hef tekið tvöfalda vakt og verið að vinna frá 7-23. Búin í skrokknum og höfuðið að springa og með ógleðina upp í kok.
Ég get alveg lofað ykkur því að heimur -geðveikinar- er ekki spennandi.
Mikið svakalega hlýtur að vera hræðilegt að sjá og heyra eitthvað og finna svo að manni sé ekki trúað. Þó ég hafi reynt mitt besta þessi tvö kvöld, gekk ég ekki svo langt að kasta mér í gólfið þegar hún æpti "NIÐUR" og kúrði sig sjálf niður í hjólastólinn. Það eitt olli henni pínu hugarangri. Afhverju var ég ekki eins hrædd og hún???
Þegar ég svo kvöldið eftir reyndi að útskýra fyrir henni að ég sæi ekki það sama og hún, spurði hún mig hvort ég héldi að hún væri geðveik. Ég sagði henni að ég héldi það hreint ekki, en ég vissi að hún væri búin að eiga erfitt + að hún var með blöðrubólgu og það eitt og sér gæti haft ótrúleg áhrif á allar hugsanir og lýðan. Hún lét sem hún trúði mér. Ég vona að hún hafi trúað mér.
Ég held ekki að Frú Fjóla sé geðveik, þó hún lifi í geðveiki. Og ég vona að hún eigi eftir að fá rétta hjálp og komast aðeins lengra í lífinu.
Góða nótt. Hulla andvaka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.2.2008 | 10:15
Börn bulla
Fyrir ekki löngu síðan eyðilegði Júlíus hurð í skólanum (eða rispaði hana)við erum búinn að segja Júlla að hann verði að borga hurðina sjálfur með sínum peningum.
Það eru bara afleiðingar þess að skemma það sem maður á ekki.
Svoðeilis gera vel uppalin börn bara ekki. Og hann vill svo gjarnan vera góður og vel upp alinn.
Júlíusi finnst það ekki eins ljómandi hugmynd og okkur, en hann hefur ekki mótmælt þessu neitt að ráði, en komið með svona hugmyndir um hvernig væri hægt að komast hjá því að borga.
"Þetta var ekki einu sinni falleg hurð!" - Skiptir ekki Júlíus. Maður skemmir ekki. Sérstaklega ekki það sem maður á ekki-
"En ég heyrði einhverstaðar að hefði hvort sem er átt að taka hana burt" - Alveg sama strumpur. Þú verður að borga hana-
" Þetta var næstum því óvart" - Nei þetta var langt frá því að vera óvart-
Þessar samræður áttu sér svo stað kl 5:50 í gærmorgunn þegar ég var að keyra snáðana mína í skólann.
Júlli: Mamma ætti ég ekki bara að mála hurðina.?
Ég: Nei Júlli, þú þarft að kaupa nýja hurð.
Júlli: Já , en sko, ég er nebblega að safna fyrir dáltlu öðru.
Ég: Við erum búin að ræða þetta. Horfðu út um gluggann eða eitthvað, ég er að keyra og þegar ég er svona þreytt þá get ég ekki bæði keyrt og talað og hugsað... Þú veist... Eins og karlmaður.
Júlli: Það er dimmt, ég sé ekkert. Skooo ég var að huxsa og ef ég kaupi bara málningu þá vill Lars kannski hjálpa mér að mála hurðina. Þá þarf ég bara að kaupa málningu og þá á ég afgang fyrir hinu sem mig langar í. (Júlli veit ekkert hvað honum langar í, veit bara að það er ekki hurð.)
Ég: Hurðin er rispuð Júlli minn, það er ekki bara hægt að mála yfir það.
Júlli: En ef ég mála og lími svo plakat yfir rispuna (þarna er hann farinn að brosa, ég get heyrt það á röddinni hans þó ég sjái hann ekki í myrkrinu) Hann VEIT að þetta er góð hugmynd.
Ég: .....(Brosi samt)
Júlli:Ef ég kaupi svona plakat af mjólk, aþí að þetta er eldhúshurð. Það er ógisslega flott.
Jói: Þá þarftu að kaupa plakat, það kostar marga peninga. Teiknaðu bara mynd i sted for.
Júlli: Neeee ég kann ekkert að teikna mjólk.
Jói: En ef þú klistrar bara strái í rispuna og málar svo yfir, þá sést það ekkert...
Júlli: (dálítið æstur, og mjög hneykslaður) Jói!!! Eru brjálaður, veistu ekki hvað hey er eldfimt!!!
Þarna var ég komin í frekar gott skap.
Atli Haukur: Strákar, það er til sérstakt krem til að smyrja í svona rispur...
Ómg. Og ég sprakk úr hlátri.
Og ég útskýrði fyrir strákunum að á íslensku, og reyndar dönsku líka héti þetta krem altså sparsl!
Þegar við svo sóttum púkana seinnipartinn tilkynnti Jóhann okkur að hann hefði útbúið boðskort í videokvöld og látið nokkra krakka hafa.
Ég var búin að segja honum kvöldið áður að ég skyldi hjálpa honum við þessi kort núna um helgina, en hann var nú ekki alveg að nenna að bíða eftir því.
Hann mundi nú ekki alveg hvað dag hann bauð krökkunum að koma.
En mundi að það var sennilega í kringum Páskana!!!
Mikið grunar mig að foreldrar þessara barna verði nú glöð og hamingjusöm þegar þau sjá þessi boðskort. Sérstaklega þegar þau taka eftir því að Jóhann bauð börnunum þeirra að koma frá föstudegi til sunnudags!!! Fínt frí það, nema fyrir okkur.
Einnig get ég ímyndað mér að sömu foreldrar verði fyrir voðalegum vonbrigðum þegar ég hringi til að segja þeim að þetta sé smá rangur misskilningur, og ég ætli ekki að vera með fullt hús af auka börnum yfir alla Páskahelgina.
Þegar ég setti strákana út við skólann í morgunn, tók ég af þeim loforð að haga sér vel og gera ekkert af sér. Eins og ég geri alltaf.
Gaman að vita hverju þeir taka upp á í dag.
Hafið góðan dag. Knús, Hulla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.2.2008 | 11:56
Þunglyndi eða óhamingja?
Er ekki líka bara málið, að stundum er erfitt að greina á milli þunglyndis og óhamingju?
Eða er kannski hægt að lækna óhamingju með pillum?
Þekki persónulega helling af fólki sem hefur leitað til læknis í kjölfari erfiðleika s.s skilnaðar eða fjárhagserfiðleika, og gengið út með lyfseðil upp á þunglyndistöflur.
Er ekki stundum hægt að hjálpa fólki án þess að hrúga í það lyfjum?
Bara smá hugmynd.
Efast um virkni þunglyndislyfja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.2.2008 | 06:35
Lena 18 ára
Í dag verður litla afkvæmi mitt númer 2, 18 ára, sem þýðir að ég missi forræðið yfir henni
Hún hefur reyndar alltaf verið ofsalega sjálfstæð og hefur hingað til illa tekið tiltali en samt finnst mér þetta svo svakalega sorglegt.
Fyrir 18 árum var bolludagur. Við vorum nýflutt í plínkulítið húsnæði og ég var mestmegnis ein, því Óli (pabbinn) var að vinna og taka meiraprófið á þessum tíma, og kom því alltaf mjög seint heim.
Pabbi minn sótti okkur Dönu um 2 leitið þennan dag til að bjóða okkur í bollukaffi. Svo var ætlunin að horfa á Sankta Barbara sem var sýnd á stöð 2.
Ég átti ekki von á mér fyrr en daginn eftir og var búin að gera ráð fyrir að ganga með viku lengur eins og ég gerði með Dönu.
Þegar ég tók fyrsta bollu bitann kl 3 kom fyrsta hríðin. Hún var ekki góð. Ég var einhvernvegin ekki alveg að kveikja að þetta væri í raun og veru að gerast, því ég var ekki búin að reikna með að þetta mundi byrja að degi til.
4 mínútum seinna var ég samt viss og pabbi var orðinn fölur.
Hann keyrði mig með það sama heim og tók til föt á Dönu því hann ætlaði að vera með hana á meðan ég væri að koma frá mér afabarni hans.
Ég hringdi strax í Óla í vinnuna. Þá var hann nýfarinn, en yfirmaður hans hljóp út á plan og náði í skottið á honum. 3 mínútum seinna hefði það verið of seint, hann hefði verið á leið í meiraprófið, og engir gemmsar á þessum tíma.
Hann var ótrúlega fljótur inn í Hafnarfjörð frá Sundahöfn. Við inn í Malibuin og lögðum af stað.
Ég var með bilaða verki og hrikalega lítil í mér. Þegar Óli svo ákvað að koma við upp í Breiðholti, sem er kannski ekki alveg í leiðinni, hélt ég hreinlega að ég mundi deyja. En honum fannst mjög nauðsynlegt að koma við hjá mömmu sinni til að ná í myndavél til að geta tekið myndir af ósköpunum.
Á þessum tíma var Reykjanesbrautin voðalega ný, og stytti sem betur fer leiðina upp í Breiðholt um helming.
Þegar við urðum svo bensínlaus milli Kaplakrika og Setbergsins var ég nokkuð viss um að litla barnið mitt mundi fæðast í gömlum Amerískum bíl á Reykjarnesbrautinni. Ég hefði átt að biðja pabba um að keyra mig.
Bensínmælirinn í bílnum var bilaður, nálin var föst og sýndi alltaf hálfan tank og Tobbi bróðir Óla hafði haft bílinn í láni kvöldið áður og ekkert verið að spá í þessu.
Nohhh, eníhá þá skutlaði Óli sér út úr bílnum og byrjaði að húkk! Martröð lífs míns var hafin. Að fara á puttanum upp á Fæðingarheimili.
Það stoppaði strax fyrir okkur gamall Skódi, Óli var orðinn ansi stressaður á þessum tímapunkti og nánast dró mig út úr bílnum og tróð mér aftur í Skódabílinn.
Bílstjórinn var á leið upp í Breiðholt sem passaði Óla ofsalega vel!!! Því hann var sko ekkert hættur við að ná í myndavélina.
Þegar næsta hríð skall á gat ég ekki hagað mér vel, enda óhemja mikil ef mér er illt, bílstjórinn gjóaði augunum í baksýnisspegilinn og svo á Óla. Þá fyrst útskýrði Óli að ég væri sko að fara að eiga en við þyrftum svo að komast til mömmu hans upp í Breiðholt til að ná í myndavél.
Og ég get alveg sagt ykkur að þarna kasólétt með hræðilega verki, óx álit mitt á Skódum um allan helming. Vá þeir geta svo vel keyrt hratt. Á augabragði vorum við upp í Fífuseli, Óli rauk inn en ég ákvað að bíða fyrir utan, enda gat ég orðið ekki gengið fyrir verkjum sem voru orðnir viðstöðulausir.
Ég er oft að hugsa um þvílík heppni það var að mamma hans Óla skyldi hafa verið heima.
Það var býsna oft að hún fór í búðir eða til mömmu sinnar eftir vinnu og þarna var hún bara rétt skriðin inn frá vinnu.
Við keyrðum í traffík dauðans niður á fæðingarheimi,á bílnum hennar Ann.
Og upp alla þessa stiga, ekki þægilegt að ganga upp stiga með hríðar.
Þegar við komum upp, tók á móti okkur sama ljósan og tók á móti Dönu, steinhissa á því að við höfðum ekki tekið lyftuna. Þvílík sæla. Ég var sett með það sama í skoðun, þar spurði þessi indæla gamla kona mig hvort ég væri mikið þjáð. Ég vældi eins og smá stelpa -sem ég reyndar var- að þetta væri svo sártttttt. Og hún trúði mér. Aðallega samt því hún sá höfuðið á barninu!
Ég gekk eins og með tunnu milli lappana inn í fæðingarherbergið og þar fæddist svo hún Lena mín 12 mínútum seinna, eða kl 16:50.
Í stuttu máli: Lena svaf svo fyrstu 9 mánuðina og hefur verið óþekk síðan.
Dana kom systur sinni heldur betur á óvart í tilefni dagsins.
Hún bauð litlu systur í heimsókn og til stóð að fara út að borða kvöldið eftir.
Kvöldið eftir er svo bankað og inn gengur Óli, sem ekki hefur verið í miklu sambandi við dætur sínar síðan að við skildum fyrir 16 árum síðan. Lenan mín ætlaði ekki að trúa því að hann væri þarna og hefur sennilega verið í gleði vímu langt fram á næsta dag.
Hugsa að hún hafi fengið bestu afmælisgjöfina þarna.
Það gleður mig ótrúlega mikið að sjá skotturnar mínar glaðar og ánægðar með pabba sinn.
Batnandi mönnum er best að lifa og ég vona svo innilega að verði framhald af þessu.
Allavega er ég búin að bjóða Óla og konunni hans í grill í sumar... Svo er bara að sjá hvort þau eigi leið hér um.
Leyfi mér að setja hér inn 2 myndir sem ég fékk hjá Dönu í gær.
Lena með pabba sínum Dana og hennar kona, Hanne.
Gleðilegan þriðjudag á ykkur. Mojna Hulla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)