Færsluflokkur: Bloggar

Þreytti Palli.

HeartÉg veit ekki hversu gáfulegt það er að taka þrefalda vaktir á sama sólarhringnum.
Sennilega ekkert gáfulegra en margar aðrar hugmyndir sem ég fæ (nú brosa einhverjir).
Allavega er ég ekki þreyttari en það að ég næ ekki að sofna þó ég sé búin að vinna 24 tíma samfleytt. Lýi... Ég kom heim í klukkutíma á milli vakta og svo fer náttúrulega einhver tími í að keyra á milli. Þannig að 24 mínus smá.

Tók að mér kvöldvakt í gær við að keyra út til gamlingjana.
Hef ekki viljað gera það áður vegna hræðslu við að tala ekki nógu góða dönsku og við að finna ekki réttu húsin og göturnar. Maður er líka bara eitthvað svo einn.
Þessi vakt gekk samt feikna vel og ég fór bara einu sinni inn í vitlaust hús. Sem er met. Við erum að tala um að ég keyrði á 13 addressur. Og bara ein villa. Það er nokkuð gott Undecided

Ég er voða stolt af mér og er að hugsa um að taka fleiri í bráð. En ekki fyrr en ég er búin að ná að sofa pínu í hausinn á mér. Sleeping

Nóttin var heldur ekki eins erfið og ég átti von á. Ég er líka svo dugleg við að hafa ofan af fyrir mér til að hreinlega sofna ekki.
Vaktin byrjaði reyndar á að ég ætti 23:30 og þá tók við rapport af kvöldvaktinni sem hafði átt ansi annasamt kvöld. Þetta var það lengsta rapport sem ég hef orðið vitni af, en hún rappaði líka um þrjár deildir svo það er kannski ekki skrítið.
Svo, því að ég er greinilega ekki eins leiðinleg og sumir halda, þá sat þessi elska hjá mér ábyggilega til klukkan 1. Klukkan 1:30 kom svo udegruppen inn til að hjálpa mér að snúa, og hún fór fyrst um klukkutíma seinna. Rétt um 3 kom svo sjúkrunarkonan inn og þegar hún fór um hálf 4 þá voru bara 3 og hálfur tími eftir af minni 8 tíma vakt.
Þessir tímar fóru að mestu í að svara neyðarkalli frá vini mínum (sem var uppáhalds þar til í nótt, nú er hann uppáhalds nörda vinnur minn) Smile 
Þessi stóri uppáhalds nörda vinur minn er búinn að ásetja sér það að reykja sig til dauða á sem stystum tíma. Þess vegna er hann hættur að sofa að mestu og hringir í staðinn í tíma og ótíma til að láta færa sér smóka.
Hann má því miður ekki hafa tóbakið sitt sjálfur vegna þess að þegar maður sefur ekkert alla nóttina á maður að sjálfsögðu það til að dotta aðeins á morgnana og daginn, og kvöldin. Og jafnvel á nóttunni þó að maður þvertaki fyrir það. Og þá aukast nefnilega líkurnar á að maður kveiki í heilu elliheimili, og það er ekki vinsælt.
Þess vegna er maður tilneyddur til að hlaupa til hans á 20 mínútna fresti til að opna læsta hirslu sem geymir þetta góðgæti hans. (örlitlar ýkjur þarna á ferðinni... með 20 mínúturnar, ekki góðgætið)
Og ekki það að ég hafi ekki gott af hreyfingunni, en come on, það eru um 100 metrar til hans aðra leiðina og reikniði svo sjálf. Stundum fer ég þangað 20 sinnum á einni vakt. Ef það er ekki hreyfing, hvað þá?

Allavega, þá var ég búin að gera ansi mikið í nótt. Labba fram og tilbaka, til að falla ekki í svefn, og allt í einu datt mér í hug að ná í stóra fjólubláa uppblásna boltann sem er ætlast til að maður geri svona æfingar á.
Ég rúllaði stjórnlaust fram og tilbaka á þessu flykki og réði ekki neitt við neitt. Hafiði prófað þetta??? Þetta er bara allt annað en auðvelt! Mig skyldi ekki undra þó að ég fái endalaust af merblettum eftir þessa annars ágætu boltaferð.

Nú held ég að svefninn sé farin að segja til sín og ætla að skutla mér upp í rúm og tékka hvort eitthvað gerist.

Knús á ykkur öll


Klukk

Þar sem ég hef nú verið klukkuð þrisvar er ég að hugsa um að ljúka þessu af og rita hér niður þær upplýsingar sem óskað er eftir.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

Hjúkrunarheimilið Kumbaravogur, Reynir bakari, Við Fjöruborðið, Prentsmiðja Friðriks Jóelssonar.

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:

Behind enemy lines, I kina spiser de hund, Steiktir grænir tómatar, River wild

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Hjalteyri, Akureyri, Hafnarfjörður, Stokkseyri.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

Friends, Klovn, King of Queens, Nip Tuck .

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Belgía, Holland, Ísland, Danmörk .

Fjórar síður sem ég skoða daglega (fyrir utan bloggsíður):

mbl.is, google.is, tv2.dk, bt.dk

Fernt matarkyns sem ég held uppá:

Humar, Nautakjöt, Lagsanga, Pítsa.

Fjórar bækur/blöð sem ég les oft:

Jyske vestkysten, Se og hør, Billedebladet, Familiejournalen

Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:

Ísland, Bahama, Hawaii, Jamaica.

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

Anna Ragna - Hross- Landsveit og Steina.

Svo í lokin vil ég benda á þessa nýju stórskemmtilegu bolta íþrótt sem Kínverjar hafa sennilega funndið upp í lok ÓL


Til Lukku!

Elsku litli bróðir minn á afmæli í dag. Hann er þrítugur í dag. Skrítið hvað tíminn flýgur.
Hann er stórkostlegur söngvari og með þá fallegustu rödd sem ég hef heyrt.

Nú er ég búin að eyða 2 tímum í að reyna að koma inn einhverjum af lögunum hans inn í tónlistaspilarann en kem bara einu.
Neðst á síðunni til vinstri er líka pínku myndband með honum þar sem hann er að syngja í brúðkaupinu okkar.
Veit að þið nennið kannski ekki að hlusta á það, en ég get hlustað aftur og aftur og aftur InLove

Allavega... Uppáhalds bróðir minn. Elska þig ofur heitt og hlakka til að sjá ykkur skötuhjú, vonandi sem fyrst.

Billede 206

 

 

 

 

Beggi Dan og Hulla Dan... Langflottust.

 

 

 

Allar þær myndir sem ég hef undanfarið verið að drita inn af sjálfri mér með öðrum, eru teknar í brúðkaupinu mínu, þar sem ég er komin í prjónapeysu utan yfir brúðarkjólinn.
Hef ekki ósjaldan verið talin frekar smart.

Gott kvöld á ykkur.

 

 

 

 

 


Til Hamingju!

Elsku Sveinbjörgin okkar er 40 ára í dag InLove
Þessi krúttmoli er búin að vera okkar besta vinkona síðan við kynntumst henni almennilega þegar hún flutti ásamt manni og barni til Stokkseyrarinnar 1999.

Sveinka er besta manneskjan sem ég þekki. Búin til úr gulli í gegn.
Elska hana ofur heitt.

Þessi elska er í dag ótrúlega fjölhæf myndlista kona og býr á Akureyri.
Vona að ég hitti hana sem fyrst aftur.

Bestu vinkonur D

 

 

 Vona að þessi snúlla hafi átt dásamlegan dag og kvöldið verði líka gott.

 

 

 

 

P.s. Síðasta næturvaktin núna í nótt og hjúkk.

Knús á ykkur öll Heart

 


Ísland er næst stórasta land í öllum heiminum!

Horfði á leikinn eftir klukkutíma svefn og var nokkuð sátt við úrslitin.
Þeir komu sáu og sigruðu (altså Frakkarnir) og gerðu það vel.
Íslendingarnir og Fúsi stóðu sig líka að mínu áliti ógó vel. En það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða handboltastrákum. Ég gat ekki betur séð en væri nánast ómögulegt að koma boltanum inn í markið hjá frökkunum, og finndist mér hin besta hugmynd að íslendingar mundu nú slá saman og kaupa þennan markmann. Hann og hinn -okkar maður, ofvirki-  mundu svo í sameiningu sjá til þess að aldrei framar kæmist bolti inn í íslenskt mark!!!
Allavega fínn leikur og ég held að allir geti verið sáttir við þessi úrslit.
Frábært að sjá hvað Frakkarnir voru hamingjusamir og sennilega margar stoltar mæður og eiginkonur að fylgjast með sínum snúllum og fagnað ákaft.

Hér er svo myndband frá Færeyjum, sem ég vil mana alla til að horfa á. Sérstaklega rauðar konur Smile
Munið að hlátur lengir lífið og njótið vel.

Góða nótt til ykkar allra og dreymi ykkur vel, á meðan ég rölti fram og til baka á elliheimilinu mínu og passa mig að blunda ekki eitt augnablik.
Heart


Gull er gott fyrir líkama og sál.

Núna eftir nokkrar mínútur birtist þessi svartálfur á tröppunum hjá okkur.

DSC00557

 

Þetta er Danni litli Helgason, en hann og Eiki eru systrasynir.

Þessi mynd var tekin í brúðkaupinu okkar Eika í fyrra þegar Danni var orðinn ofurlítið kenndur og komin í krínólínið mitt og búinn að setja restina af slörinu í hárið á sér.
Svo var rokkað fram á nótt Smile

 

Í fyrramálið rennur svo að sjálfsögðu stóra stundin upp, og til að hita aðeins upp fyrir hana setti Eiki fyrir mig lagið sem okkur á þessu heimili finnst að ætti að vera þjóðsöngur Íslendinga inn í tónlistaspilarann, og að sjálfsögðu með uppáhalds dólginn minn sem söngvara.

Svo er bara að liggja á bæn og vona það besta á morgunn.

Knús á ykkur og Guðrún mín, vona að þið náið að skemmta ykkur þó mig vanti Woundering

Heart ást frá mér.

 


Litlir karlmenn.

Í dag kenndi ég strákunum mínum að vinda tuskur og þurrka af borðunum.
Það tók 30 mínútur á Atla Hauk (13 ára) og Júlla (12 ára) en bara 10 mínútur á Jóa (8 ára)
Ekki svo að skilja að þeir hafi aldrei komið við tuskur.
Þeir hafa bara kuðlað þeim saman og þegar er t.d búið að nudda tómatsósu útum allt borð, með tusku fjandanum, þá er henni bara skutlað í vaskinn, handa mömmu eða pabba að skola.
Nenni ekki svona lengur.

Þeir skulu læra þetta Devil

Er dauðþreytt og ætla að kúra mig upp í sófa þar til ég fer á næturvakt nr 2.

Heart


Upplýsingar um sjúkdóm óskast!

Var hjá lækni í dag, sem er frásögu færandi.
Og hefst þá frásögnin.

Einu sinni upp í sveit í Danmörku bjó lítil sæt stelpu snót.
Hún var alltaf að fá verk fyrir brjóstið og var orðin nokkuð þreytt á því, enda með eindæmum hrikalega vont. Þessir verkir voru búnir að koma af og til í ca 6 ár.
Stelpu snúllan var búin að fara óteljandi oft til lækna og búin að vera send í alskyns rannsóknir bæði á Íslandi og Danmörku, en ekkert fannst.
Og nú er stelpu skottan að tapa sér!!!

Ég sagði Dr.Benson í dag að ég væri en að kálast. Verkirnir kæmu oftar og væru alltaf að versna og væru farnir að dreifa sér yfir hálft andlitið líka.

Dr.Benson: Humm. Ja humm. Þú ert búin að fara í rönken, hjartalínurit og allar blóðprufur koma vel út.

Ég: Já veistu... mér er samt illt. Og ég er ekki með geð til að vera svona lengur.

Dr.Benson: Er eitthvað sérstakt sem þú vilt að ég geri?

Ég í huganum: Já, hoppir í hafið!

Ég upphátt: Já finnir út hvað er að mér. Hvað með skönnun á lunganu, getur maður ekki séð eitthvað meira með svona skönnun?

Dr.Benson: Nei. Rífðu þig úr fötunum og andaðu djúpt inn!

Ég gerði það og hann sagðist ekki heyra neitt óvenjulegt.
Byrjaði svo að hnoðast á öllum aumu vöðvunum mínum og það sem ég sat hálf meðvitundarlaus úr verkjum spurði hann ofur blítt hvort ég fyndi til!!!

Dööö jaaaaa. Þegar stór og sterkur karlmaður pottar þumalputtunum á kaf í litla stúlku vöðva, er þá við öðru að búast???

Svo sagðist hann ætla að senda henvisningu á gigthospitalið. Sem er svolítið skondið vegna þess að læknirinn sem ég fór til fyrir sumarfrí, sagði að það væri ekkert í blóðinu sem benti til gigtar!!!

Svo sagði ég Dr.Benson frá því að ég væri búin að hnerra stanslaust í 3 vikur og ofnæmisnefúðinn sem hann leit mig fá síðast virkaði ekki meir.

-Þá skrifa ég bara upp á meira fyrir þig.
-Já en get ég ekki bara fengið að vita fyrir hverju ég er með ofnæmi?
- Nei
- Já en ég er með ketti,hænur, kanínur, ryk og skymmelsveppi og mér þætti voða vænt um að vita hvort sé eitthvað af þessu sem veldur ofurnæmni hors míns. Þá gæti ég jafnvel gert ráðstafanir án þess að vera alltaf að spreyja á mér nefið
- Já þú verður bara að prófa þig áfram!  Blessuðð. NÆSTI

Hvernig á ég að prófa mig áfram???
Henda kisunum og sjá hvort það virkar?
Eða brjóta burtu vegginn með sveppunum og sjá hvort eitthvað lagast við það?

Hér með óska ég eftir fólki með svipaða verki og ég fæ.

Þeir lýsa sér eins og maður sé með kú sitjandi á brjóstkassanum. Svo kemur voða vondur verkur í lungað og manni lýður eins og það sé allt í kremju. Svo fær maður verk í handlegginn og í kjálkann.
Lýsir sér faktískt eins og hjartaáfall, bara vinstra meginn.

Ætla að skvera mér á næturvakt. Eigið dásemdar nótt! InLove


Obbbobbbobb

Mér finnst þetta nú pínulítið hár aldur, en pabbinn er ungur og ern, svo maður bara vonar að allt eigi eftir að ganga vel hjá þessari stóru fjölskyldu.

Einhvernvegin hlýtur það líka að vera frábært að fá loksins að verða mamma.
Hugsa að ég mundi reyna fram í rauðan dauðan ef ég væri barnlaus.
Held ég...


mbl.is Eignaðist fjórbura 55 ára gömul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhverju?

Ég er voðalega reið núna.
Var að lesa visi.is og sá þar þessa frétt http://visir.is/article/20080820/FRETTIR01/621784455
Nú langar mig voðalega mikið til að vita afhverju er ekkert gert?
Afhverju gera barnaverndunaryfirvöld ekki eitthvað?
Afhverju gerir lögreglan ekki eitthvað?
Móðirin er með heimilisfang og er greinilega ráðþrota. Afhverju fær hún ekki hjálp?

Það skal engin ímynda sér að það sé auðvelt að eiga barn sem maður getur ekki hjálpað.
Ég veit það að eigin raun að þetta er hreint og klárt helvíti sem foreldrar svona barna ganga í gegnum.
Helvíti sem foreldrar ráða yfirleitt ekki við sjálfir og verða því að leita eftir faghjálp.
Heimurinn flæðir í allskonar viðbjóði og ógeði, og það vita það allir.
Því lengri tíma sem það tekur að fá hjálp fyrir barnið, þeim mun erfiðara er að hjálpa því. 
Þeim mun meiri líkur á að barnið upplifi viðbjóð sem engin maður ætti að upplifa og því meiri líkur á að eitthvað skelfilegt gerist.

Ég er svo mikið reið að ég ætla ekki að skrifa helminginn af því sem er efst í höfðinu á mér núna.
Ætla bara að vona að þessi móðir fái hjálp NÚNA!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband